29.7.2008 | 12:40
Fór á fjöll !
Ég brá undir mig betri hjólunum, um helgina, og fór á fjöll.
Fyrst var ekið um Þjórsárdalinn, litið á hjólhýsabyggðina við Ásólfsstaði, og rifjuð upp sagan af Gauki Þrándilssyni. Síðan framhjá einhverri ljótustu skógrækt landsins, þar sem er eins og trjánum hafi verið plantað af Þýskri nákvæmni með tommustokk og áttavita, svo beinar eru línurnar. Einnig rifjaðist upp slys, sem varð á þessum slóðum fyrir nokkrum árum, þegar jeppi, fullur af ferðamönnum á leið í Landmannalaugar valt á veginum. Aldrei fékkst úr því skorið hvað, nákvæmlega varð til þess að bíllinn valt, en ýmsar kenningar heyrðust. Þá var einnig talað um að gera kröfur til bíla og ökumanna skýrar, svo að ekki leiki neinn vafi á hvað þarf til að mega aka með ferðamenn á sérútbúnum bílum um landið. Einhvernveginn finnst mér eins og það hafi ekki komið neitt útúr því. A.m.k. eru eigendur slíkra bíla ennþá krafðir um (og rukkaðir fyrir af hinu opinbera), gjöld, sem geta engan vegin staðist samkv. reglugerðum. Svo virðist sem hið opinbera haldi að með því að seilast nógu andskoti djúpt í vasa bíleigenda, geti það fríað sig undan ábyrgð sinni á að gera hlutina öruggari fyrir ferðafólk. Ég held því hinsvegar fram, að með endalausum, órökstuddum álögum, geri ríkið rekstrar umhverfi fyrirtækja óþarflega erfitt, og geti jafnvel stuðlað að erfileikum og óöryggi í rekstri, í stað þess að hlúa að, og styrkja stoðir atvinnuveganna.
Mér dettur stundum í hug að ríkið er eins og alkóhólisti, heimtar meir og meir, en gefur ekkert í staðinn, og á endanum fer allt í kaldakol. Þá er bara að halda sér þurrum á hnefanum í smá tíma, og gefa fólki smá von, um að nú fari allt að lagast. Blíðmælgin og loforðin eru hástemmd, og allt virðist í blóma, en þá fellur ríkið (alkinn), og allt fer í sama horfið aftur. Og kjósendur eru eins og þrusumeðvirk fjölskylda, láta ljúga að sér aftur og aftur, og kjósa sömu svikarana í næstu kosningum.
Þetta var pólítíska hugleiðing dagsins, maður bara gleymir sér alveg. En áfram með vinnuna fyrir ferðamálastjóra:
Efst í Þjórsárdalnum var ferðafélögunum orðið mál að pissa, enda hafði verið stoppað fyrir pylsu og kók, og ís, í Árnesi. Mig minnti að það væri salerni við Stöng, svo að þangað var haldið, (því við kunnum ekki við að fara á þjóðveldis salernin án þess að kaupa eitthvað, og því tímdum við ekki, enda margbúin að koma þangað). Eftir að hafa ekið stórskemmdan, og varla fólksbílafæran veginn inn að illa förnum, og útskitnum rústum Stangar, fundum við ekkert salerni. Áfram var ekið upp að Gjánni, enda á fjallabíl. www.nat.is:images:gjain_thjorsardalur.jpg.webloc Þar var fullt af fólki að njóta þessa fallegasta staðar Íslands, en mér var hugsað til Hvannarinnar, er þetta þessi hættulega ?. Nú urðum við að fara bak við stóra steina, og bera á, eins og sannir túristar, okkar framlag til uppgræðslu landsins. Eftir að hafa skoðað Sultartangasíflu, og rifjað upp ógleymanlega tíma við byggingu þá, stærstu stíflu sinnar tegunar í Evrópu, og kynni af Jóa Begg og hans mönnum, var haldið í Hótel Háland. www.hotelhighland.is/is og gist þar. Hótel Háland er eina hótelið á þessum slóðum, sem býður uppá herbergi með baði, og þjónustu í veitingasal, og það verður að segjast að þjónustan í veitingasalnum, og gæði matarins komu skemmtilega á óvart, eftir að hafa kynnst sífellt hrakandi þjónustu á hótelum um allt land, þá hefur Hótel Háland haldið sínum klassa, hvað þjónustu varðar, og svo var þjónustufólkið líka brosandi, sem gerir upplifunina enn betri.
Eftir góða nótt á hótelinu, og smá morgunmat í Hrauneyjum, (sváfum pínulítið yfir okkur), var haldið í Landmannalaugar, eftir versta vegi Íslands.
"Góða frú ferðamálastjóri": Við fáum til landsins um það bil 600.000 ferðamenn á ári. Flestir sem taka bílaleigubíl tala um vegina með hryllingi og þakka sínum sæla, að hafa sloppið stórslysa laust frá þeim. En því miður er ekki alltaf svo, þó að flestir tali um "hinn alræmda" Dettifossveg, þá er annar miklu verri: Vegurinn frá þjóðvegi 26, framhjá Hrauneyjalóni og yfir Sigöldu, eins og sést á Púströrum, hljóðkútum, dempurum, drullusokkum og öðrum bílapörtum, sem liggja á, eða við þennann kafla. Værirðu ekki til í að beita þér fyrir einhverskonar vegabótum þarna ? Ef þú ert ekki viss um hvaða kafla ég er að tala um, þá skal ég keyra hann, þegar þú þiggur boð mitt um "einkaferð" um ferðamanna staði landsins.
Í fyrra settu þau heiðurshjón Nína og Smári upp skilti, sem áttu að koma skilaboðum um bann við utanvegaakstri til skila, þau sjást ekki lengur, þarna mætti umhverfisráðherra gera eitthvað. www.landmannalaugar.info Við Frostastaðavatn höfðu mótorhjólaníðingar verið á ferð, eins og sjá má (Hér átti að vera mynd, en eitthvað gekk illa að hlaða henni niður, kannski vegna biluninnar ?) Reyndar datt Smára í hug, að hér væri sá sami á ferð og fyrir 4 árum, og sagði: "Ætli honum hafi ekki fundist gömlu förin óþarflega gróin".
"Háþrýstiþvegin" salernin í Landmannalaugum voru í þokkalegu lagi, og fannst að lokum eitt af fjórum með pappír, en Landvörðurinn ætlaði að líta á það þegar hún væri búin með kaffið. En það besta við Laugarnar í suddanum, fannst mér þó kaffið í "Háfjalla mollinu" hjá Nínu og Smára.
Í Áfangagili er prýðisgott og hreint vatnssalerni, enda rekið af einkaaðila: www.afangagil.info
Eftir jeppaferð uppí 1000 metra hæð í Hekluhlíðar, var haldið heim á leið, og á morgum byrjar vinnan aftur.
P.s. getur einhver upplýst mig um hvort eitthvað er að, eða hvort ég kann ekki að setja inn myndir ?
Börkur, sem vill halda áfram að skila skýrslum með myndum, fyrir ferðamálastjóra, og alla, sem hafa áhuga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.