Ísland í dag (Ástarsaga)

Ég ætla að segja sögu tveggja góðra vina minna, og barnanna þeirra: Þau báðu mig að segja ekki hvað þau heita, vegna fjölskyldnanna, svo við skulum kalla þau Jón og Gunnu. Þau hittust fyrir u.þ.b. 10 árum, þá bæði í menntaskóla, og urðu svona "skólapar". Þegar Gunna varð stúdent, hafði Jón flosnað upp, enda alltaf verið dálítið villtur. Hann byrjaði að læra til trésmíði, en ólgan í blóðinu og töffaraskapurinn gerðu honum erfitt fyrir. Hann fór til sjós, á góðan togara, og þénaði vel. Gunna fór að vinna hjá Landsbankanum, og var vel liðin, enda reglusöm og iðin. Fyrir sex árum (þegar ég kynntist þeim), varð Gunna ólétt, og þau ákváðu að hefja búskap saman og gifta sig. Hann hætti á sjónum, og fór að vinna í landi, og hún hélt áfram hjá bankanum. Þau keyptu litla blokkaríbúð í Breiðholtinu, fengu lán hjá Íbúðarlánasjóði og voru hamingjusöm. Tveimur árum seinna varð Gunna ólétt af seinna barni þeirra, fallegum dreng, og nú fannst þeim að þau hlytu að geta tekið þátt í góðærinu, og stækkað við sig. Enda bæði í góðu starfi, hann var að vinna við virkjanaframkvæmdir fyrir austan, og þénaði vel, og hún í bankanum. Þau keyptu góða íbúð í litlu fjölbýli í Grafarholti, og í þetta sinn tóku þau myntkörfulán, "enda svo miklu hagstæðara" að mati allra ráðgjafa, sem þau töluðu við.  Gunnu var boðið "hagstætt lán" til að kaupa hlutabréf, sem hún að sjálfsögðu þáði.  Lánið lék við þau, og framtíðin var björt.  Yfirvöld og verkalýðsfélög myndu sjá til þess að stöðugleiki yrði tryggður. 

      Þau buðu mér í heimsókn um jólin 2006, og ég gladdist með þeim yfir fallega heimilinu, fallegu börnunum, og björtu framtíðinni, sem blasti við.  Mér varð hugsað til þeirra, þegar Forseti og Forsætisráðherra fluttu áramótaræður sínar, og lofuðu glæstum framtíðarhorfum.

     Fyrir ári síðan hætti Jón á fjöllum, og fékk vinnu hjá stóru bygginga fyrirtæki, sem vélamaður og bílstjóri.  "Gott að vera meira heima" sagði hann.  Þau keyptu nýja bíla á síðasta ári, enda "hagstæð fjármögnun" í boði, "Við látum draumana rætast", sagði fjármögnunarfyrirtækið, myntkörfulán.

     Óveðursskýin hrönnuðust upp, gengissig, verðbólga úr böndunum,  vextir hækkuðu, og eignirnar rýrnuðu.  En greiningardeildir bankanna, og talsmenn stjórnvalda, róuðu fólk, og sögðu "aðeins tímabundin órói", "þetta lagast í næsta mánuði", "eða þarnæsta".  Og Jón og Gunna treystu þessu fólki, en höfðu þó efasemdir.  En glýjan frá nýbyggingunum og fínu bílunum, sem fylltu göturnar, byrgðu þeim sún, sem og flestum öðrum.  Gunna reyndi að selja bréfin, til að minnka við sig skuldirnar, en þá kom grimmur raunveruleikinn í ljós.  

     "Hagstæða" lánið sem Gunna tók, var háð því að þau seldu ekki bréfin fyrr en eftir að minnsta kosti 2 ár, og yrði ekki á gjalddaga fyrr en þá (næsta sumar).  

Og svo kom Hrunið.  Þrátt fyrir að deildarstjórinn hennar Gunnu hafði sagt að "við erum ekki að fara á hausinn, veistu ekki hver á Landsbankann"  Hahaha.  Bankanum var lokað, og viku seinna fékk Gunna uppsögnina.  Hún hefur þriggja mánaða uppsagnarfrest, og launin eru minna en helmingur þess sem hún hafði áður.  Jón missti líka vinnuna, því að byggingafyrirtækið stendur afar illa, og óvíst hvort það lifir af hremmingarnar, honum voru borguð mánaðar laun, og tilkynnt að hann þyrfti ekki að vinna uppsagnartímann.   Bílarnir eru yfirveðsettir, svo það er ekki möguleiki að selja þá án þess að enda með skuld.  Og það versta af öllu:  Þau rúmlega 20% af verðmæti íbúðarinnar, sem þau áttu í henni, eru uppurin, töpuð.  Á sama tíma er fasteignamarkaðurinn frosinn, og íbúðaverð hrapar hraðar en nokkru sinni fyrr.  En skuldirnar aukast og aukast.

Allt í einu er þessi fallega fjölskylda ekki svo falleg lengur.  Það er drungalegt og dimmt yfir, glampinn og gleðin sem ríkti á þessu heimili fyrir tveimur árum, hefur breyst í vonleysi, vonbrigði, reiði og óhamingju.  Fyrir þessu glæsilega fólki blasa erfiðleikar, sem þau hafa aldrei kynnst fyrr, erfiðleikar sem þeim var lofað að þau þyrftu aldrei að kynnast.  

     Ég heimsótti þessi ungu hjón fyrir nokkrum dögum, og var brugðið að sjá breytinguna, úr andlitum þeirra skein vonleysi og biturð, ekki síst útí sjálf sig, fyrir að hafa látið glepjast af fagurgala glæpamannanna, sem plötuðu landsmenn alla og yfirvöld, og spiluðu með auð þjóðarinnar, en tryggðu sér um leið vænar fúlgur, snekkjur og einkaþotur.

  Framtíð Jóns og Gunnu er ekki björt.  Gjaldþrot og atvinnuleysi er framundan, og svo kemur að gjalddaga á stóra láninu, sem átti að verða þeirra sneið af góðærinu.  Þau ætla að halda góð jól, fyrir börnin, en Gunna sagðist ekki finna jólafriðinn í brjósti sér.  Hún setur upp grímu á hverjum degi, fyrir börnin, en ég sá breytingu á börnunum, þau skynja að eitthvað er ekki eins og það á að vera.  Annar bíllinn er númerslaus inni í skúr, til að spara tryggingagjöld.  Hann er til sölu, þeir eru það báðir, en hver vill kaupa bíla, sem eru yfirveðsettir ?  

     Þau reyna að halda andlitinu útávið, en við, sem þekkjum þau sjáum biturðina og vonleysið í augunum.  Nýverið braut stelpan litla eina hurðina af eldhúsinnréttingunni (fyrirferðamikið barn), og ég spurði hvort þau ætluðu ekki að laga hana fyrir Jól.  "Nei, það tekur því ekki" var svarið, "þetta er allt farið hvort sem er".

     "Aumingjaskapur", gæti einhver sagt, en ég veit að svona er komið fyrir mörgum nú um mundir, fólk ætlar að reyna að þrauka Jólin, en sér enga framtíð eftir það.

     Og ekki ætla ráðamenn þjóðarinnar að gera mikið til að hjálpa, ráðaleysið og kjarkleysið er algjört.  Þeir dæma þjóðina til kjaraskerðingar, sem flytur okkur 40 ár aftur í fortíð, sem flestir vildu gleyma, en "geta ekki" lækkað ofurlaun sín, "Vegna þess að það vantar lög til þess", aumingja fólkið.  Og hvar eru þeir sem störtuðu þessu öllu saman ?, í útlöndum, í lúxusíbúðunum sínum.  Þeir hafa vit á að láta ekki sjá sig hér heima.  Og hvað með ráðamenn þjóðarinnar, sem áttu að gæta hagsmuna okkar ?.  Þeir halda dauðahaldi í mjúka stólana sína, og harðneita að taka á sig nokkra ábyrgð.

  "Pöpullinn skal borga" segja þeir, fyrir hvað ?, jú fyrir að hafa trúað og treyst þessu fólki, og ímynda okkur að  eftir sextíu ára baráttu, væri Íslenska þjóðin loksins að uppskera betra líf, og frelsi.  En í staðinn hefur sparnaði og eignum þjóðarinnar verið stolið, og okkur gert að axla skuldaklafa um ókomna tíð.

     Hafi ríkisstjórnin ekki dug í sér til að gera "eigur" Útrásarvíkinganna, upptækar ti ríkissjóðs, ættum við að fjölmenna og taka þessi hús, frekar en að láta þau standa sem minnismerki um niðurlægingu þjóðarinnar, og sigurtákn þjófanna.

     "Megi þjófarnir þjást eins og þeir ætla þjóðinni að þjást"!  

Burt með spillingaröflin!

Burt með handónýtt þing !

Burt með ofurlaunafólkið !

Heim með glæpalýðin !

Í fangelsi með landráðamennina ! 

 

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Tek undir  síðustu orð þín.  Þetta er það sem blasir við þúsundum Íslendinga.....og engar lausnir í sjónmáli.

Hólmdís Hjartardóttir, 9.12.2008 kl. 02:10

2 Smámynd: Rannveig H

Sorgleg saga! Ég tek undir með þér burtu með þetta spillingar og ofurlaunapakk. Og í fangelsi með hitt.

Rannveig H, 9.12.2008 kl. 02:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband