Færsluflokkur: Kjaramál
14.11.2009 | 00:19
Skattahækkanir - Gott mál.
Mér finnst þessar hugmyndir ríkisstjórnarinna hið besta mál. Samkvæmt þessum hugmyndum verður fólk með allt að 400.000 Kr. með lægri skatta en nú, meðan fólk með hærri tekjur borgar meira.
Margir hafa velt því fyrir sér, hvort þetta þýði ekki að fólk hætti að vinna yfirvinnu, þar sem helmingurinn af laununum myndi fara beint í skatta, Jú vonandi!.
Þetta gæti þýtt að í stað þess að fólk leggði á sig endalausa yfirvinnu, þá þyrfti fólk að breyta lífstíl sínum aðeins. Gera eins og gert er víðast í Evrópu.
Hætta að vinna á skikkanlegum tíma, og eyða meiri tíma með fjölsyldunni. Það gæti þýtt minni kostnaður vegna aukatíma í pössun fyrir börnin. Meiri tíma í matseld = minni unnin matvara, og þar af leiðandi ódýrari og hollari.
Minna verslað í ,,klukkubúðum", og þar af leiðandi hellings sparnaður fyrir heimilið. Meiri tími fyrir útivist og holla hreyfingu = betri heilsa. Styttri vinnutími þýðir líka meiri tími til að koma sér í og úr vinnu (vinnutími væri 8 - 5 eða 10 - 7 ), og þar af leiðandi betri grundvöll fyrir almenningssamgöngur. Í stað þess að endurnýja heimilis bílinn á örfárra ára fresti, færi fólk frekar með hann á verkstæði til viðhalds. Það skapar störf, og minnkar innflutning. Fólk færi kannski að ferðast meira innanlands, frekar en að fara tvisvar á ári til sólarlanda, eins og alsiða var orðið.
Vinnuveitendur þyrftu að ráða fleira fólk, til að fá sömu framlegð og áður, þegar fólk vann 10 - 12 tíma á dag. Það er atvinnuskapandi, en ég held að við verðum að skapa fleiri ,,millilauna" störf, frekar en örfá ,,hálaunastörf" eða mörg ,,láglaunastörf".
Jafnframt þessum breytingum yrði mikil breyting til góðs á fasteignamarkaðnum, íbúðaverð yrði að laga sig að tekjum fólks. Jafnvægi gæti skapast. Og kannski sæjum við loksins raunverulegann leigumarkað, eins og þekkist víðast hvar í heiminum, nema hér.
Til þess að þetta geti orðið að veruleika þurfa allir að taka þátt í dæminu, og til að tryggja það þurfum við sterk verkalýðsfélög. Því miður hafa verkalýðsfélögin flest breyst úr því að vera félög, sem standa vörð um kjör verkalýðsins í að vera handbendi atvinnurekenda, stjórnað af vanhæfu fólki, sem hugsar um það eitt að skara eld að eigin könnu, og mýkja undir eigin rassi. Það hefur varla þekkst almennilegur verkalýðsforingi hér síðan áður en Gvendur Jaki var keyptur af auðvaldinu, og sveik þar með verkalýðinn. (Ég trúi því að það hafi verið ákveðin elliglöp hjá honum)
Nú ríður á að fólk noti þetta tækifæri til að breyta þjóðfélagsháttum hér til hins betra. Hætti græðgisvæðingunni, og taki upp nýjan og betri lífsstíl, til frambúðar.
Nú ríður á að verkalýðsforystan fari að sinna sínu, og hætti að ganga erinda atvinnurekenda, eins og hún hefur gert uppá síðkastið, um það eru mýmörg dæmi. Þar tel ég helsta: forystu ASÍ og Eflingar, en auðvitað eru fleiri, sem hafa svikið fólkið sitt og málstað.
Kannski eru þessar hugleiðingar mínar barnalegar og draumkenndar. En þar sem ég sit andvaka, og reyni að sjá eitthvað gott í framtíð þjóðarinnar minnar, þá dettur mér þetta í hug.
Kjaramál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)